Aðalfundur 2013

Aðalfundur Styrktar- og sjúkrasjóðs Reykjavíkur var haldinn á 5. hæð í Perlunni fimmtudaginn 8. maí 2013, á 146. starfsári sjóðsins.

Formaður sjóðsins, Bjarni Ingvar Árnason, setti fundinn kl. 12:15 og bauð menn velkomna til hádegisverðar í boði sjóðsins og Veitingahússins Perlunnar. Gestir fundarins voru frá Reykjalundi þau Dagný Erna Lárusdóttir- formaður stjórnar SÍBS og Birgir Gunnarsson-forstjóri Reykjalundar. Gerði Bjarni tillögu um fundarstjóra Ásgeir Gunnar Ásgeirsson og ritara Erling Viðar Leifsson ásamt Viðari Böðvarssyni og var það samþykkt.

Ásgeir gekk til dagskrár og fram fóru hefðbundin aðalfundarstörf:

  1. Skýrsla formanns
  2. Skýrsla gjaldkera
  3. Reikningar bornir upp til samþykktar
  4. Kosning stjórnar
  5. Kosning skoðunarmanna reikninga
  6. Önnur mál

Í skýrslu formanns mæltist honum svo:

“Ég gat þess á aðalfundi okkar í fyrra að borðbæn okkar við stjórnarborðið hefði gjarnan verið um hve vel okkur lánaðist í „hruninu“ að eignir sjóðsins guldu ekki afhroð sem víða reyndist. Ítreka hér að þessi ágæta borðbæn skipar enn þann sess hjá okkur. Við höfum haldið okkur við raunsæi í fjárgæslu, þá höfum við ekki tekið nein stór skref í styrkveitingum þótt til okkar hafi verið leitað. Má þar ma. segja að ekki hafi verið um nógu vel ígrunduð mál að ræða, margir komið að málum og málefnin verið misjöfn. Ég er ekki þar með lasta það sem í boði var, en okkur þótti rétt að halda að okkur höndum. Þar með er ekki sagt að sjóðurinn hafi ekki látið gott af sér leiða í ár – síður en svo.

Einmitt um þessar mundir erum við að færa Reykjalundi að gjöf húsbúnað að verðmæti vel á 3ju milljón króna, sem kemur sér vonandi vel þar efra.

Reykjalundur er í miklu uppáhaldi hjá SSVR, við höfum áður varið afrakstri af Akademíu söfnunum sem fram hafa farið á vegum okkar til verkefna á endurhæfingasviði Reykjalundar. Við höfum einmitt fundið fyrir því þeli þar efra og árangri, sem menn gjarnan vilja sjá – þannig að góð verk verði til góðs.

Það er því ekki að ófyrirsynju að við teljum Reykjalund vera hinn kjörna vettvang fyrir SSVR amk. eins og sakir standa.

Stjórn SSVR hittist reglubundið á starfsárinu, málefnin á dagskrá eru jafnan svipuð ár frá ári eða hagur sjóðsins í nútíð og framtíð.

Okkur er einnig tíðrætt um fortíðina, en því er ekki að leyna að nær 150 ára samfelld saga sjóðsins er einsdæmi í þjóðfélagi okkar, þótt vissulega séu verkefnin harla ólík þeim sem á borðum voru í öndverðu, þegar árstillegg félaganna voru tvær spesíur eða 2 silfur ríkisdalir, sem nú væru ígildi 14 potta af úrvals-góðu brennivíni.

Því er ekki að leyna að menn eru stoltir af því sem liðið er hvað sögu sjóðsins varðar. En við skulum líka minnast þess að litlu munaði þegar til stóð að leggja sjóðinn niður og færa eignirnar undir Elli og dvalarheimilið Grund árið 1963. Nú eru liðin 50 ár frá þessum hremmingum, en sem betur fer varð ekki af því, þökk sé þeim sem mátu stöðuna rétt og létu athafnir ráða undir traustri forystu Gunnars Magnússonar síðar formanns SSVR, slíkt sem þetta má ekki gerast – aldrei.

Það eru ákveðin tímamót hjá sumum okkar í stjórn sjóðsins, fráfarandi stjórn undir formennsku minni hefur nú starfað saman um allangt skeið eða í 10 ár að telja. Jafnan hefur verið góð sátt við stjórnarborðið og vil ég þakka stjórnarmönnum öllum sem einum fyrir góða og málefnalega vinnu allan þann tíma.

Nú koma nýjir menn inn í stjórnina með nýja vendi í farteskinu og við væntum að sjálfsögðu mikils af þeim. Á 140 ára afmæli sjóðsins 2007 kom fram í skýrslu stjórnar að formaðurinn vænti þess að á 150 afmælisárinu 2017 gætu eignir sjóðsins numið kr. 50. milljónum sagt og skrifað. Þetta er alls ekki svo fráleitt ef vel er á haldið og mundi tvímælalaust færa sjóðinn á annað tilvistarstig með verkefni sín. Það er því ærinn starfi framundan og eins gott að láta hendur standa fram úr ermum. Við sem göngum nú úr stjórninni erum nokkuð sáttir við stöðu sjóðsins, auðvitað vildum við að félagatalið væri fjölmennara en raun ber vitni, en grunnurinn er fyrir hendi til góðra verka í framtíðinni.

Það er til siðs að minnast látinna félaga, bið ég ykkur að rísa úr sætum og minnast þeirra með virðingu – í þögn.

Að lokum vil ég þakka það traust sem þið félagar í SSVR hafið sýnt mér með því að treysta mér til að gegna formannsembættinu undanfarin 10 ár, það hefur verið ljúft verk og gefandi í alla staði og þakkar vert að koma að”.

Í lok ræðu sinnar þakkaði hann meðstjórnendum sínum samstarfið.

Fundarstjóri bar skýrslu formanns upp til umræðu og var hún samþykkt samhljóða.

Því næst var komið að skýrslu gjaldkera.

Las Ásbjörn Einarsson upp niðurstöður reikninga fyrir starfsárið 2012 (1. janúar – 31. desember, 2010).

Þar kom fram að rekstrartekjur námu kr. 2.578.641,-. Rekstrargjöld voru kr. 226.826,-. Eignir voru kr. 24.833.308,- þar af óráðstafað eigið fé frá fyrra.ári kr. 22.481.493,- og hagnaður fluttur af rekstrarreikningi kr. 2.351.815,- .

Kjörnir skoðunarmenn reikninga höfðu samþykkt og áritað reikningana.

Voru reikningarnir bornir upp og samþykktir samhljóða.

Kosning stjórnar var næst á dagskrá. Það lá fyrir að umtalsverðar breytingar yrðu á stjórninni þar sem formaður, ritari, gjaldkeri ásamt hluta meðstjórnenda og varameðstjórnenda myndu nú draga sig úr stjórn.

Fyrst skyldi kjósa nýjan formann. Stungið var upp á Guðmundi Geir Gunnarssyni, forstjóra, og var það samþykkt samljóða. Um ritara kom fram tillaga um Guðjón Guðmundsson, ráðgjafa, og var hún samþykkt samljóða. Um gjaldkera kom fram tillaga um Guðmund Reykjalín, viðskiptafræðing, og var hún samþykkt samljóða. Meðstjórnendur voru kjörnir þeir Viðar Böðvarsson og Friðbert Pálsson. Erlingur Viðar Leifsson, Þorlákur Lúðvíksson og Jón H. Magnússon voru kjörnir í varastjórn.

Skoðunarmenn reikninga voru endurkjörnir.

Þá tóku til máls gestir fundarins, þau Dagný Erla og Birgir. Birgir forstjóri Reykjalundar gerði grein fyrir starfi stofnunarinnar og hvernig starfsemi þar er háttað. Lýsti hann ánægju sinni og þakklæti vegna stuðnings sjóðsins við Reykjalund. Dagný Erla Lárusdóttir formaður stjórnar SÍBS ræddi stofnun Hollvinasamtaka Reykjalundar og lýsti því yfir að hún væri vongóð um gott samstarf við sjóðinn á þeim vettvangi.

Fundarstjóri Ásgeir Ásgeirsson kvaddi sér hljóðs og ræddi tvo menn, þá þekktu athafnamenn í veslunarstétt Ágúst Thomsen og Harald Árnason, og aðkomu þeirra að stofnun sjóðsins. Hann þakkaði einnig fráfarandi formannni, Bjarna Ingvari Árnasyni, vel unnin störf og risu menn úr sætum og klöppuðu fyrir honum. Bjarni þakkaði fyrir sig og lýsti ánægju með störf Fjárhagsráðs sem til hefði verið stofnað. Einnig lýsti hann ástæðum þess að leitað var til Guðmundar Geirs til að taka við formannsembættinu.

Guðmundur Geir formaður tók þá til máls, þakkaði fyrir sig og minnti á að stofnun sjóðsins er í raun grunnur að því samtryggingarkerfi sem þykir sjálfsagt í dag.

Haraldur Haraldsson tók næstur til máls og lýsti reynslu sinni sem vistmaður á Reykjalundi. Fundarstjóri sleit fundi kl. 13:20.

Fundinn sóttu 32 þar af tveir utan félags.